Aðalfundur Húsavíkurstofu

Aðalfundur Húsavíkurstofu var haldinn í Hvalasafninu 6. apríl síðastliðinn. Húsavíkurstofa er vettvangur fyrir hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á Húsavík. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf og önnur mál.

visitnortheasticeland_007

Húsavíkurstofa átti rólegt ár 2016 enda hætti dagleg starfsemi skrifstofunnar í aprílmánuði það ár. Þrátt fyrir það er stjórn starfandi og Húsavíkurstofa er og verður áfram mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila á Húsavík til að vinna að sameiginlegum markmiðum og berjast fyrir nauðsynlegum hagsmunamálum.  Markmið fundarins var að móta ramma um framtíðarverkefni félagsins með tilliti til þarfa ferðaþjónustunnar á Húsavík og nágrenni.

 

Ný stjórn
Skipað var í nýja stjórn. Þar sitja:

Heiðar Halldórsson (formaður),
Valdimar Halldórsson,
Elín Þórhallsdóttir,
Gunnar Hnefill Örlygsson,
Bergþóra Höskuldsdóttir.
Til vara eru Snæbjörn Sigurðsson, Rúnar Óskarsson og Bjarni Páll Vilhjálmsson.

Þjónusta verði í boði alla daga ársins
Ýmis mál komu til umræðu á fundinum. Rætt var um nauðsyn þess að Húsavíkurstofa myndi veita stjórnvöldum aðhald með áframhaldandi ályktunum um t.d. samgöngumál í héraði. Samþykkt var samhljóða ályktun um að fundurinn fagni aukinni flugtíðni Ernis til og frá Húsavík og ferðaþjónustuaðilar vinni áfram að styrkingu á þessu flugi, ekki síst þegar dregur úr framkvæmdum á Bakka. Fundarmenn voru sammála um að tímabært sé að helsta þjónusta sé í boði allan ársins hring fyrir ferðamenn, líka á hátíðsdögum. Hugmyndir um að skipta opnunum á hátíðsdögum á milli fyrirtækja voru settar fram til frekari skoðunar.  Einnig voru ræddir möguleikar á þráðlausu neti fyrir ferðamenn sem heimsækja Húsavík sem myndi leiða þá í helstu upplýsingar um verslanir og þjónustu. Loks var rætt um félagsgjöld og hvernig best sé að útfæra þau.

 

 

 

English