Söfn og sýningar

Á Húsavík eru mjög áhugaverð söfn sem draga til sín tugi þúsunda gesta árlega. Það eru Hvalasafnið á Húsavík og Menningarmiðstöð Þingeyinga. Í sumar (2014) bætist svo við Könnunarsögusafnið.

Hvalasafnið er staðsett við höfnina í gamla sláturhúsi KÞ, byggt 1931. Sýning Hvalasafnsins er ítarleg um líf og umhverfi hvala við Ísland og bíðar og þá ber að geta þess að í sýningunni eru 10 beinagrindur í fullri stærð, sú stærsta tæpir 14 metrar af Búrhval sem rak á land í Steingrímsfirði. Í móttöku safnsins er einnig upplýsingamiðstöð ferðamanna á Húsavík.

Menningarmiðstöð Þingeyinga hefur fjölmargar sýningar á sínum snærum vítt og breitt um Þingeyjarsýslur. Hér á Húsavík rekur stofnunin Safnahúsið á Húsavík þar sem eru tvær fastasýningar; Mannlíf og náttúra í Þingeyjarsýslum – 100 ár í Þingeyjarsýslum og einnig er safnið með glæsilega sjóminjasýningu. Þess má geta að fyrri sýningin hlaut íslensku safnaverðlaunin sumarið 2012. Enginn ætti að láta þessar sýningar fram hjá sér fara.

Könnunarsafnið verður tileinkað þeim könnuðum sem eiga tengingar við Þingeyjarsýslur. Fyrsta ber auðvitað að nefna Garðar og Náttfara sem höfðu vetursetu á Húsavík um miðja 9. öld. Þá verður einnig sögu fyrstu tunglfaranna gerð ítarleg skil en þeir æfðu sig í Þingeyjarsýslum 1965 fyrir tunglferð sína 1969.

Nánar um söfnin:

English