Gönguferðir fyrir ferðamenn

Næsta sumar verður boðið upp á gönguferðir fyrir ferðamenn frá upplýsingamiðstöðinni á Húsavík. Ferðirnar sem hlotið hafa vinnuheitið „Húsavík Walking Tours“  eru á vegum Húsavíkurstofu sem útsetur ferðirnar og sér um framkvæmd þeirra.

Verkefnið er hugsað sem viðbót við upplýsingamiðstöðina þar sem starfsemi hennar er tekin út fyrir hússins dyr. Ferðamenn verða leiddir um helstu staði miðbæjarkjarnans og fræddir um þá staði sem á vegi verða. Ferðirnar verða blanda af ferðaþjónustukynningu, náttúruskoðun og sögu. Hið síðastnefnda vísar til þess að segja sögur af Húsavík og húsvíkingum, ásamt því að koma inn á ýmsa siði og venjur sem einkenna bæjarfélagið okkar. Hafin er heimildaöflun sem miðar að því að gera gönguferðina sem áhugaverðasta fyrir ferðamanninn.

Stefnt er að því að fara tvær ferðir á dag, að morgni og seinnipart dags. Markhópur Húsavík Walking Tours eru ferðamenn sem eru að leita að aukaafþreyingu, ekki síst þeir sem eru annarsvegar á leið í hvalaskoðun og hinsvegar þeir sem eiga aukaklukkustund aflögu að morgni eða síðdegis.

Hugmyndasmiðir Húsavík Walking Tours eru Heiðar Halldórsson og Francesco Perini. Þeir álíta verkefnið mjög heppilegt innlegg í afþreyingarflóru bæjarins sem horfir til þess að ferðamenn fræðist á nánari hátt um Húsavík og innviði hennar.

English