Húsavíkurfjall

Það er óumdeilt að Húsavíkurfjall er mest áberandi einkenni Húsavíkur þrátt fyrir að vera ekki nema 417 metrar á hæð. Ásýnd fjallsins að sumarlagi hefur breyst í tímans rás. Áður fyrr var lítið um gróður í fjallinu en í dag litast fjallið blátt af lúpínu á hverju sumri.

Það er hin besta líkamsrækt að ganga upp á fjallið. Hægt er að leggja við svokallaðan Gónhól og ganga þaðan upp malarveg sem meðal annars liggur fram hjá skotvelli Húsvíkinga. Þessi vegslóði er u.þ.b. 3,1 km að lengd. Þeir sem vilja enn meiri áskorun geta lagt niður við sundlaug og gengið upp þjóðveginn þangað til beygt er til hægri við áðurnefndan afleggjera upp við Gónhól. Með þessarri viðbót er vegalengdin orðin 5 km aðra leið. Uppi á toppi fjallsins er stórkostlegt útsýni, þar sem hægt er að sjá yfir bæinn, Skjálfandaflóa, Flateyjarskaga, Botnsvatn og í raun langt fram eftir nærsveitum Húsavíkur. Nýlega var sett upp gestabók í kassa uppi á toppnum sem göngugarpar eru hvattir til að kvitta í. Þá er tilvalið fyrir aðdáendur svifflugs að fljúga fram af fjallinu. Svifflug er í töluverðum vexti á Húsavík og á sumrin er nokkuð algengt að sjá fólk koma í háloftunum frá fjallinu og fljúga yfir bæinn.
Göngukort af Húsavík
Akstursleiðina frá Húsavík, upp á fjallið má sjá hér


Mynd: Einar Gíslason

 

English