Húsavíkurkirkja

Húsavíkurkirkja stendur í miðju bæjarins og hefur þess vegna verið vinsælasta kennileiti Húsavíkur. Kirkjan var vígð 2. júní 1907. Á vef Húsavíkurkirkju segir svo frá upphafi kirkjusmíðarinnar: “Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Margir telja að Húsavíkurkirkja sé hans fegursta verk og lofi meistara sinn. 
Aðalhleðslumaður við grunn kirkjunnar var Jón Ármann Árnason steinsmiður, Fossi, Húsavík. Yfirsmiður var Páll Kristjánsson smiður og kaupmaður á Húsavík. 
Sveinn Þórarinsson listmálari frá Kílakoti, Kelduhverfi málaði altaristöflu kirkjunnar 1930-1931 og sýnir hún upprisu Lasarusar. Altaristaflan er fyrir margra hluta sakir merkileg. Landslag í bakgrunni hennar telja ýmsir sig þekkja úr íslensku umhverfi, m.a. keimlík fjöll úr Öxarfirði og hraungjár úr Kelduhverfi. Einnig var haft á orði að listamaðurinn notaði andlit sveitunga sinna sem fyrirmynd að fólki á altaristöflunni.

Húsavíkurkirkju er hægt að skoða að innan frá 8-18 yfir háferðamannatímann (maí-september). Engin leiðsögn er um kirkjuna en nánari upplýsingar um innviði hennar má finna HÉR.

English