Náttúruperlur og menning

Húsavík og nágrenni býður upp á mikið úrval afþreyingar, bæði náttúrlegrar og menningarlegrar. Við mælum með að þú skoðir sem flest, það er af nógu að taka!

Helstu ferðamannastaðir í kringum Húsavík

Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss er einn af áhugaverðari fossum landsins, staðsettur við norðurenda Sprengisandsvegar. Þar fellur Skjálfandafljót 20 metra niður. Fossinn er sérstaklega myndrænn vegna samspils svarts basalts og hvíts vatns í fossinum.
Ásbyrgi
Ásbyrgi er eitt af sérstæðustu jarðfræðiundrum á Íslandi. Það er 3,5 kílómetra langt og rúmur kílómeter á breidd. Í miðju byrginu er klettaveggur sem skiptir því í tvennt og nefnist eyjan. Frá Húsavík er aðeins um 50 mínútna akstur að Ásbyrgi og er það bæði vinsælt meðal ferðafólks og göngufólks.
Botnsvatn
Botnsvatn er skammt suðaustur af Húsavík. Það er rúmur ferkílómeter að stærð og er í 130 metra hæð yfir sjó. Úr vatninu fellur Búðará sem rennur gegnum Húsavík til sjávar. Vegur liggur til vatnsins og nokkuð meðfram því. Umhverfi vatnsins er hlýlegt. Suðvestan þess er nokkuð gróin heiði, en á móti eru fjöll niður að vatnsborði. Mikið er af bleikju í vatninu, fremur smárri, en allgóðri.
Dettifoss
Dettifoss er kraftmesti foss í Evrópu og einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Fossinn er 45 metra hár og rúmlega 100 metra breiður. Dettifoss er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Auk þess að vera með kraftmeiri fossum í heimi þá er hann einnig á lista yfir stærstu fossa heimsins.
Dimmuborgir
Dimmuborgir eru einstæðar hraunmyndanir við austanvert Mývatn sem mynduðust við eldgos í Lúdentsborgum og Þrengslaborgum fyrir um 2000 árum. Eru þau gos mestu hraungos sem orðið hafa á Mývatnssvæðinu eftir ísöld. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Dimmuborgir á ári hverju.
Flatey
Flatey er fimmta stærsta eyjan við Ísland og sú stærsta á Skjálfanda, tæpir 3 ferkílómetrar að flatarmáli og rís hæst 22 metra yfir sjó. Byggð var í eyjunni frá 12. öld fram til ársins 1967 þegar hún lagðist af. Þegar best lét voru íbúar eynnar 120 talsins árið 1943. Fiskveiðar voru aðalatvinnuvegur eyjaskeggja auk kvikfjárræktar en hlunnindi voru einnig nokkur af rekaviði, fuglavarpi og sel.
Flateyjardalur
Flateyjardalur er eyðidalur á Flateyjarskaga sem liggur að hafi skammt frá Flatey á Skjálfandaflóa.
Fuglasafn Sigurgeirs
Fuglasafnið var opnað 2008. Í safninu getur þú séð næstum alla varpfugla á Íslandi og egg þeirra. Í annarri sýningu er hægt að sjá þau tól og tæki sem voru notuð við veiðar á Mývatni. Í safninu er einnig veitingastaður með frábært útsýni yfir Mývatn.
Gljúfrastofa
Gljúfrastofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum og er til húsa í uppgerðum fjárhúsum og hlöðu býlisins Ásbyrgis. Gljúfrastofa veitir upplýsingagjöf og stendur fyrir sýningum um sögu og náttúru þjóðgarðsins.
Goðafoss
Goðafoss er meðal stærstu fossa á Íslandi og þykir jafnframt einn sá fallegasti. Hann er formfagur og einkar myndrænn. Skjálfandafljót rennur um hraun sem talið er hafa komið úr Trölladyngju við fyrir 7000 árum og runnið um 100 km leið til sjávar í Skjálfandaflóa.
Grenjaðarstaður
Grenjaðarstaður er glæsilegur torfbær í Aðaldal.  Jörðin er landnámsjörð, fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur. Árið 1958 var bærinn opnaður sem byggðasafn með á annað þúsund gripa sem fólk hafði gefið í safnið.  Það er einstök upplifun að ganga um bæinn og ímynda sér hvernig fólk lifði þar, bæði fyrir börn og fullorðna.
Heimskautsgerðið
Heimskautsgerðið er einstakt listaverk sem stendur rétt norðan við Raufarhöfn. Gerðið fanga miðnætursólina rétt við heimskautsbaug. Heimskautsgerðið er 52 metrar í þvermál og í því er hringur með nöfnum 72 dverga sem eiga hver sína fimm dagana á árinu.
Húsavíkurkirkja
Húsavíkurkirkja er þrílit timburkirkja sem stendur í miðbæ Húsavíkur og er eitt helsta kennileiti bæjarins. Kirkjuna hannaði Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og var hún vígð 2. júní 1907. Þegar hún var byggð voru í kirkjunni sæti fyrir alla íbúa Húsavíkur. Húsavíkurkirkja er krosskirkja, byggð úr norskum við.
Hvalasafnið á Húsavík
Hvalasafnið á Húsavík gegnir lykilhlutverki í fræðslu og upplýsingamiðlun um hvali og lífríki þeirra hér við land. Í 1600 fermetra sýningarrými er að finna margvíslegan fróðleik um hvali og samskipti manna og hvala, s.s. hvalveiðar, hvalreka, hvalaskoðun og þróun tegundarinnar. Beinagrindur af 9 tegundum hvala gefa góða mynd af stærð og mikilfengleika þessara stórkostlegu dýra.
Hönnunarverksmiðjan
Hönnunarverksmiðjan er staðsett á annari hæð í gömlu verbúðunum við Húsavíkurhöfn. Þar er seld hönnun úr heimabyggð auk þess sem þar er unnið að hönnun og arkítektúr.
Kaðlín Handverksmiðstöð
Kaðlín er handverkshús og verslun á Húsavík þar sem handverksfólk í Þingeyjarsýslum selur varning úr eigin smiðju. Gaman er að skoða nýja muni sem unnir eru með gömlum aðferðum og vinnur handverksfólkið ómetanlegt starf í að skila handverkssögunni áfram til komandi kynslóða.
Krafla
Krafla er megineldstöð nálægt Mývatni. Hæsti tindur hennar er 818 metra hár. Í henni er sigketill eða askja sem er 10 kílómetrar í þvermál. Á Kröflusvæðinu er háhitasvæði með leirhverum og gufuhverum, til dæmis við Námafjall. Þar eru um 100 km langar sprungur sem gliðna í sundur um 2 sentímetra á ári. Eldgos verða oft á slíkum svæðum.
Mannlíf og náttúra: 100 ár í Þingeyjarsýslum
Á aðalhæð Safnahússins á Húsavík er sýningin Mannlíf og Náttúra. Í sýningunni er fléttað saman náttúrugripum og munum úr byggðasafni Þingeyinga svo úr verður einkar athyglisverð sýning þar sem gestir upplifa sterkt samspil manns og náttúru í Þingeyjarsýslum á tímabilinu 1850 til 1950.
Minjasafnið á Mánárbakka
Minjasafnið á Mánárbakka er staðsett á Tjörnesi um 20 kílómetra frá Húsavík. Í safninu eru sýndir hversdagslegir munir frá 20. öldinni í endurbyggðu húsi er nefnist Þórshamar og var flutt frá Húsavík. Safnið var opnað 18. júní 1995 og síðan þá hefur einnig verið byggður þriggja bursta bær er nefndur er Lækjarbakki og hýsir þá safnmuni sem ekki var rúm fyrir í Þórshamri.
Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn Íslands, um 37 ferkílómetrar að stærð. Vatnið er fremur grunnt, eða fimm metrar þar sem dýpst er. Í vatninu eru um 40 litlar eyjar og þykja þær gefa vatninu ægifagurt yfirbragð. Innrennsli í vatnið er að mestu frá lindum sem eru víða við það austan- og sunnanvert. Úr Mývatni rennur Laxá. Mývatn er vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Rauðanes
Rauðanes í Þistilfirði er fallegt svæði með tilliti til þess fuglalífs og bergmyndana sem þar er að finna. Nesið er víggirt af háum og tignarlegum klettum. Á vorin fyllast björgin af sjófuglum sem liggja á eggjum og þegar ungarnir eru skriðnir úr eggjunum iðar bjargið af lífi og fuglarnir bera í þá mat allan sólarhringinn.Um nesið er auðveld 7 km gönguleið og tilvalinn staður fyrir fjölskylduna að fara og njóta náttúrunnar.
Samgönguminjasafnið að Ystafelli
Samgönguminjasafnið að Ystafelli safnar og gerir upp farartæki. Mest áhersla hefur verið lögð á bíla en önnur farartæki er einnig að finna í safninu. Safnið heldur einnig utan um ljósmyndir og heimildir úr samgöngusögu Íslands. Aðeins er um 30 mínútna akstur frá Húsavík að safninu.
Sjóminjasafnið á Húsavík
Sjóminjasafnið á Húsavík safnar og skrásetur muni, myndir og gögn sem tengjast sjósókn og sjávarnytjum á Skjálfandaflóa og nærliggjandi svæðum. Tilgangurinn er að fólk skilji betur hvernig forfeðurnir lifðu af því sem sjórinn gaf og hversu stóran þátt sjávarnytjar áttu í því að tryggja afkomu fólks fyrr og síðar. Safnið var opnað árið 2002 og er til húsa í pýramýda aftan við Safnahúsið á Húsavík.
Skjálfandaflói
Skjálfandaflói dregur nafn sitt af Skjálfandafljóti eða öfugt. Frá 1994 hefur flóinn verið eitt helsta aðdráttarafl náttúruskoðenda enda iðar hann af dýralífi. Frá Húsavík er boðið upp á hvala- og fuglaskoðunarferðir sem hafa verið gríðarlega vinsælar. Á Skjálfanda eru tvær eyjar, Lundey og Flatey. Lundey dregur vafalaust nafn sitt af þeim 200.000 lundum sem byggja eyjuna á hverju sumri. Í Flatey er liggur við mynni Flateyjardals var byggð til 1967. Þar eru nú sumarhús og er mikil upplifun að heimsækja eynna.
Skjálftasetrið á Kópaskeri
Hafist var handa við uppbyggingu Skjálftasetursins árið 2007 en þar er minnst stóra skjálftans á Kópaskeri árið 1976. Á sýningunni er einnig fjallað um aðra skjálfta víðs vegar um heiminn. Aðeins er um klukkustundar akstur frá Húsavík á Kópasker.
Tungulending
The old abandoned boat in Tungulending Beach can bee seen in many photographs around the internet and is just a part of the beautiy and charm of the Tungulending Beach. The old harbour at Tungulending offers a beautiful view of Shaky bay, only a 15 minute drive from Húsavík.
Æðarfossar
Æðarfossar eru fallegir fossar skammt sunnan Húsavíkur. Fossarnir eru norðvestan stórbýlisins Laxamýrar og vegur liggur frá býlinu að Ærvíkurbjargi í Laxamýrarleiti. Þaðan er fagurt útsýni í góðu veðri. Æðarfossar eru í neðsta hluta Laxár í Aðaldal þar sem bæði Reykjadalsá og Mýrarkvísl hafa sameinast ánni.
English