Skjálfandaflói

Skjálfandaflói er eitt af staðareinkennum Húsavíkur. Flóinn er þekktur fyrir að vera mjög líflegur sérstaklega með tilliti til hvala. Staðarheitið má rekja til öflugrar jarðskjálftavirkni fyrr á tímum en því betur hefur sú virkni ekki verið mikil síðust 100 árin.

Vinsældir Húsavíkur í hvalaskoðun er engin tilviljun. Skjálfandaflói þykir einn besti hvalaskoðunarstaður Evrópu, enda geta fyrirtækin nánast lofað því að viðskiptavinir sjái hvali í nærmynd.

Afþreying í Skjálfandaflóa er fjölbreytt. Öflugt vistkerfi í flóanum tryggir það að hvalir koma í hjörðum auk þess sem vistkerfið býður upp á nægt fóður fyrir þá sem hafa gaman af sjóstangveiði. Hægt er að komast í útsýnissiglingar þar sem meðal annars má skoða hinn íðifagra Flateyjardal. Einnig er boðið upp á sérferðir í til Lundeyjar í lundaskoðun og til Flateyjar í fuglaskoðun. Þá eru gönguferðir meðfram ströndinni tilvalin leið út af fyrir sig til að virða fyrir sér flóann og hin magnþrungnu Kinnafjöll. Liggi leið göngufólks niður að höfn eru skonnortur hvalaskoðunarfyrirtækjanna eitt og sér athyglisverð sjón sem gefur bænum skemmtilega forna ásýnd.

Myndband af flóanum séð frá höfninni má sjá HÉR


Mynd: Sigurður Ólafsson

English