Tungulending

Tungulending er fyrir margar sakir merkilegur staður. Þessi litli fjörukrókur er eitt aðalvígi jarðfræðinga Íslands enda hvergi betra að skoða steingervinga og jarðlög. Staðurinn er virkilega skjólríkur og friðsæll og því frábær staður til að heimsækja, fá sér hressingu og fylgjast með fuglalífinu allt í kring.


Kaffi og gistihús

Tungulending var upprunalega notað vegna sjómennsku bænda í  sveitarfélaginu Tjörneshrepp. Fyrst var unninn saltfiskur þar en seinna voru veiðarnar aðallega tileinkaðar grásleppu á vorin. Veiðar Tjörnesinga hættu í kringum 2000. Eftir það lá staðurinn að mestu í dvala eða allt þar til þjóðverjinn Martin Varga fékk þá hugmynd að endurbyggja gamla vinnsluskúrinn og hafa þar kaffi- og gistihús. Tungulending var opnuð í nýju hlutverki 1. júní 2015.


Mynd: Tungulending


Jarðfræði

Steingervinga getur verið erfitt að finna á Íslandi. Tungulending er undantekningin á reglunni. Í hlíðunum ofan við fjöruna eru jarðlög sem rekja má milljónir ára aftur í tímann. Hægt er að sjá forn öskuföll eftir eldgos ásamt óteljandi steingervingum. Meðal annars hafa fundist steingerð selabein og höfuðkúpa af hval. Þar sem um svo sérstæðan hlut er að ræða eru steingervingarnir friðaðir og því óheimilt að raska umhverfinu í hlíðum Tungulendingar


Mynd: Tungulending

Akstursleiðin frá Húsavík
Afleggjerinn að Tungulendingu er á vinstri hönd í um það bil 12 km fjarlægð norðan Húsavíkur. Næsti bær á undan ber nafnið Ytri-Tunga. Hægt er að komast niður í Tungulendingu á venjulegum bílum en slóðinn niðureftir er varasamur og er fólki ráðlagt að leggja ofan við brekkuna og ganga niðureftir sé færðin ekki árennileg.
Hér má sjá akstursleiðina frá Húsavík


Mynd: Jurian van den Berg & Albert Zwaan


Links

Heimasíða Tungulendingar 
Steingervingar á Íslandi
Jarðfræðin á Tjörnesi
Uppgröftur á steingerðri hvalahöfuðkúpu í Tungulendingu

English